Árið 2019
Ef grannt er skoðað kemur í ljós að fréttamiðlun hér á heimasíðu fyrirtækisins hefur verið með minnsta móti þetta árið. Úr því skal nú bætt hér á elleftu stundu!
Á vettvangi stofunnar hefur verið unnið að mörgum fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum á árinu. Á sviði hönnunar ber kannski hæst vinna við forhönnun á nýju útliti Laugavegar í Reykjavík sem göngugötu, en sú vinna kemur í framhaldi af vinningstillögu Arkís og Landhönnunar í hönnunarsamkeppni árið 2014. Á svipuðum slóðum var lokið við hönnun á hluta af endurnýjun Hverfisgötu sem staðið hefur yfir undanfarin ár. Í ár var það kaflinn framan við Þjóðmenningarhúsið og sjálft Þjóðleikhúsið, sem gerði verkefnið sérlega spennandi og vandasamt. Gaman var að sjá afrakstur þess en verkinu lauk loksins síðla hausts. Þá var á árinu unnið við hönnun leikskólalóðar við nýjan leikskóla við Engjaland á Selfossi, en í því verki var leitað var til sama hönnunarteymis og stóðu að hönnun nýs leikskóla í Hveragerði. Verkið hefur nú verið boðið út og framkvæmdir farnar af stað og verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Þá sá stofan um hönnun á frágangi í kringum nýja hótelið við Eyraveg á Selfossi sem opnað var á árinu.
Á sviði skipulags hefur stofan m.a. unnið að skoðum á áframhaldandi skipulagi íbúðasvæðis í landi Bjarkar og Jórvíkur sunnan Selfoss. Þá er til skoðunar, í samstarfi við Arkís arkitekta, skipulag á athafnarsvæði Kjöríss í Hveragerði auk smærri skipulagsverkefna í sunnlenskum sveitum sem gjarnan eru tengd uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn.
Landhönnun óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegs og gæfuríks nýs ár og þakkar samskiptin á árinu 2019.