Leikskólinn Bjarkartún, Djúpavogi
Landhönnun var falið að hanna lóð og umhverfi nýs leikskóla á Djúpavogi en Arkís sá um hönnun mannvirkis.
Um er að ræða aflanga leikskólalóð með suður-norður stefnu. Lóðin liggur utan í klapparhrygg og niður að mýrar-undirlendi. Megin hugmyndin í skipulagi lóðarinnar er gangstéttarlína sem tengir hin ólíku leiksvæði saman. Gert er ráð fyrir að sum leiksvæðin séu felld inn í hlíðina, inn á milli klappa, en undir önnur svæði sé fyllt með jarðvegi til að auka nýtni þeirra.
Sunnan við húsið er hellulagt leik- og dvalartorg í beinum tengslum við göngustíga, bæði norður fyrir hús, til suður eftir lóðinni svo og stíg sem liðast um klapparhrygginn.
Austan við húsið, í tengslum við hurð úr miðrými hússins er svo gert ráð fyrir trépalli með skjólgirðingu í kringum. Nyrst á lóð er gert ráð fyrir skjólgirðingu og skjólgróðri. Þar sunnan við verður kennslugarður með ræktunarreitum og moltugerð/ safnhaugar. Hinum ýmsu leiktækjum er komið fyrir umhverfis hellulagða leiktorgið.
Gert er ráð fyrir tveim ólíkum sandkössum, einum með klappar-umgjörð og einum trékassa. Gert er ráð fyrir að heppilegir náttúristeinar af svæðinu verði eðlilegir hlutar að leiksvæðunum. Sunnar á lóðinni er gert ráð fyrir grassvæði, (Bjarkatún), bæði sleðahól og boltaleikvelli. Allra syðst og utan við lóðargirðingu er gert ráð fyrir “Bjarkalundi”, að mestu óhreyfðu landi þar sem komið yrði á fót trjálundi og náttúrulegum lundi til óhefðbundins hópastarfs.